Björgvin Karl Guðmundsson varð áttundi í mark í níunda viðburði helgarinnar á heimsleikunum í Crossfit og er hann nú kominn upp í 5.sæti í heildarkeppninni í karlaflokki.
Fimm Íslendingar taka þátt í fullorðinsflokki á heimsleikunum en Björgvin er sá eini í karlaflokki.
Í kvennaflokki hefur Katrín Tanja Davíðsdóttir átt mjög góðan dag og er hún komin upp í 3.sæti í heildarkeppninni. Skaust hún þar með upp fyrir Annie Mist Þórisdóttir sem situr nú í 5.sæti eftir að hafa verið þriðja framan af keppni.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir hefur hins vegar dregist aðeins neðar í töflunni og er í 11.sæti fyrir lokaþraut dagsins. Oddrún Eik Gylfadóttir er í 26.sæti.
Næstu viðburðir eru Bicouplet 1 og 2 og eru þeir á dagskrá rétt fyrir 23 í kvöld. Verður hverju fótspori íslenska hópsins fylgt eftir í beinni textalýsingu á Vísi líkt og hefur verið í gegnum allt mótið.
