Sjá einnig: Á annan tug hópslagsmála og mikil unglingadrykkja
„Það er almennt mikið álag á bráðamóttökunni á Menningarnótt og meira álag en miðað við aðra daga. Við undirbúum okkur með því að hafa aukastarfsfólk á vaktinni þennan dag og þessa nótt, í öllum starfsstéttum,“ segir Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum í samtali við Vísi.
Aðspurður segir Jón að tilfellin tengist flest hátíðahöldum í borginni.

Hvernig var álagið á laugardaginn miðað við fyrri Menningarnætur?
„Það var minna að gera í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið en heldur meira að gera í tengslum við skemmtanalíf kvöldsins.“
Að sögn Hrannar Stefánsdóttur, verkefnastjóra neyðarmóttöku Landspítalans, var álagið ekki mikið á neyðarmóttöku kynferðisbrota á Menningarnótt nú um helgina. Hún tekur þó undir með Jóni og segir almennt um að ræða mikla álagsnótt á spítalanum.
Eins og áður hefur komið fram var einnig afar mikill erill hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Menningarnótt. Samtals þurfti lögregla að sinna 131 máli og tíu gistu fangageymslur. Tilkynnt var um tvær líkamsárásir, talsvert var um ölvun og slagsmál meðal ungmenna auk þess sem lögregla var tvisvar kölluð til vegna gruns um heimilisofbeldi.