Laxinn sem veiddist í Vatnsdalsá síðastliðinn föstudag og fjallað var um í fréttum Stöðvar 2 um helgina, reyndist vera eldislax. Þetta kemur fram í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar.
Laxinum var komið fyrir í höndum starfsmanna stofnunarinnar á mánudag og var sýni úr honum arfgerðagreint á rannsóknastofu Matís.
„Fiskurinn bar ytri einkenni sem bentu til eldisuppruna, s.s. skemmdir á uggum. Við krufningu kom í ljós að um hrygnu var að ræða, með mjög óþroskaða hrognsekki. Hún var með tóman maga og uggaskemmdir bentu til að hún hafi strokið seint úr eldi (síðbúið strok).
Það er óvenjulegt að ókynþroska fiskur gangi í ár og þekkjum við þess varla dæmi,“ segir í fréttinni.
Um var að ræða um 70 sentímetra hrygnu sem veiddist á flugu í Hnausastreng í Vatnsdalsá.
Laxinn sem veiddist í Vatnsdalsá var eldislax

Tengdar fréttir

„Eldið upp á land, þá verður þetta allt í lagi“
Leigutaki í Vatnsdalsá segir að ekki leiki vafi á því að lax sem veiddist í ánni á föstudag sé eldisfiskur. Talið er að stangveiðimenn hafi veitt fjóra eldislaxa það sem af er ári.