Bandaríkjastjórn er reiðubúin að taka upp viðræður við stjórnvöld í Norður-Kóreu á ný, með það að markmiði að kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu verði lokið í ársbyrjun 2021.
Frá þessu greinir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandarikjanna. Ráðherrann vísar í skuldbindingar sem Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreumanna, á að hafa lýst yfir á fundi sínum með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu. Moon er nú í þriggja daga opinberri heimsókn í Norður-Kóreu.
Kim á að hafa heitið því að veita alþjóðlegum eftirlitsaðilum aðgang að kjarnorkustöðvum Norður-Kóreu til að fylgjast með afvopnuninni.
Pompeo segir að hann hafi boðið utanríkisráðherra Norður-Kóreu, Ri Young-ho, til fundar í New York í næstu viku í tengslum við setningu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði beðið Moon um að vera milliliður í samskiptum Bandaríkjastjórnar og Norður-Kóreustjórnar. Svo virðist sem að þíða sé aftur komin í samskipti Bandaríkjanna og Norður-Kóreu, en í lok ágúst aflýsti Trump fyrirhugaðri ferð Pompeo til Norður-Kóreu þar sem hann sagði Norður-Kóreustjórn ekki hafa gert nægilega mikið til að standa við skuldbundingar. Einungis viku síðar sagði hann þó samband hans og Kim vera gott.
Bandaríkin reiðubúin að ræða við Norður-Kóreumenn á ný

Tengdar fréttir

Kim ætlar að loka skotpöllum og tilraunasvæðum
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, samþykkti á fundi með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, að einum aðal eldflaugaskotpalli ríkisins yrði lokað. Þá stefna ríkin á að afkjarnorkuvopnavæða Kóreu-skaga.

Pressa á Kim og Moon að ná árangri á þriðja fundi sínum
Leiðtogar ríkjanna á Kóreuskaga hittust í Pjongjang í gær. Munu einnig funda í dag og á morgun. Lítill raunverulegur árangur í kjarnorkumálum náðst eftir undanfarna fundi.

Leiðtogar Kóreuríkjanna föðmuðust við upphaf heimsóknar Moon til Pyongyang
Mörg hundruð Norður-Kóreumanna tóku á móti suður-kóreska forsetanum á flugvellinum í Pyongyang og veifuðu fánum.

Kóreuþjóðirnar vilja halda Ólympíuleikana 2032
Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae, forseti Suður-Kóreu, gáfu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem fram kemur að þjóðirnar ætla að sækja sameiginlega um að halda Ólympíuleikana árið 2032.