Pedro Hipólito verður næsti þjálfari ÍBV í Pepsi-deild karla en hann tekur við liðinu af Kristjáni Guðmundssyni. Hann semur til tveggja ára.
Pedro var tilkynntur sem nýr þjálfari Eyjamanna á lokahófi knattspyrnudeildar ÍBV sem haldið var í Vestmannaeyjum í kvöld.
Kristján Guðmundsson er að hætta sem þjálfari ÍBV eftir að hafa stýrt liðinu síðustu tvö tímabil. Hann vann meðal annars bikarmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.
Í ár endaði ÍBV í sjötta sæti deildarinnar en liðið lauk leik með 5-2 sigri á Grindavík á Suðurnesjunum í dag.
Einnig tók liðið þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem það datt út fyrir Sarpsborg sem fór alla leið í riðlakeppnina.
Pedro tók við Inkasso-liði Fram í júlí mánuði 2017 og hefur því starfað á Íslandi í eitt og hálft ár. Hann færir sig nú yfir til Eyja.
