Erlent

Trump segir ásakanir í garð Kavanaugh vera tilbúning Demókrata

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump er óhress með ásakanir í garð Kavanaugh.
Donald Trump er óhress með ásakanir í garð Kavanaugh. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir Demókrata standa að baki ásökunum í garð nýjasta dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, Brett Kavanaugh, og að þær séu ekkert annað en tilbúningur.

Þá segir forsetinn allt tal um að svipta Kavanaugh embætti vera móðgun við almenning í landinu og ásakanir í garð hans hafi verið skammarlegar. Kavanguh sé frábær dómari og hann hafi ekki gert neitt rangt.

„Maðurinn gerði ekkert rangt, hann flæktist inn í lygavef sem var búinn til af Demókrötum og lögfræðingum þeirra og nú vilja þeir svipta manninn embætti,“ sagði Trump við blaðamenn á mánudag.

Á fundi með lögreglumönnum í Orlando ítrekaði forsetinn orð sín og sagði vont fólk standa að baki ásökununum.

Þrátt fyrir óánægju margra Demókrata sagði Nancy Pelosi, leiðtogi þeirra í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, að hún myndi ekki kjósa þá leið að svipta Kavanaugh embætti. Þá hefur hún óskað eftir því að gera niðurstöður úr rannsókn alríkislögreglunnar á ásökunum í garð Kavanaugh opinberar.  


Tengdar fréttir

Skipan Bretts Kavanaugh staðfest

Tilnefning Kavanaugh hefur verið afar umdeild og stigu fram þrjár konur sem sökuðu hann um kynferðislegt misferli, þar á meðal sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford sem gaf vitnisburð sinn fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir rúmri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×