Erlent

Kern segir skilið við stjórnmálin

Atli Ísleifsson skrifar
Christian Kern gegndi embætti kanslara Austurríkis á árunum 2016 til 2017.
Christian Kern gegndi embætti kanslara Austurríkis á árunum 2016 til 2017. Vísir/Getty
Christian Kern, fyrrverandi kanslari Austurríkis, hefur greint frá því að hann hafi sagt skilið við stjórnmálin. Það felur jafnframt í sér að hann stefni ekki lengur að því að gerast arftaki Jean-Claude Juncker í stóli forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Kern lét af embætti leiðtoga austurríska Jafnaðarmannaflokksins í september síðastliðinn. Margir litu svo á að með því stefndi hann að því að verða frambjóðandi hóps Jafnaðarmanna á Evrópuþinginu til embættis forseta framkvæmdastjórnarinnar eftir kosningarnar til Evrópuþingsins á næsta ári.

Hinn 52 ára Kern sagði að með því að segja skilið við stjórnmálin nú væri hann að skapa rými fyrir nýjan leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, Pamelu Rendi-Wagner, að byggja upp öfluga stjórnarandstöðu í landinu, án þess að þurfa að standa í „stöðugum skugga“ Kern.

Kern tók við embætti kanslara árið 2016 en lét af embætti í kjölfar kosninga 2017. Sebastian Kurz tók við kanslaraembættinu af Kern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×