„Við höfum verið að reyna að næla í eitthvað og vorum að horfa í nokkur kvöld. Þar á meðal Toronto þann 8. desember. Það gekk ekki og þar á eftir kemur áramótakvöldið í Las Vegas,“ segir Gunnar en það kvöld er nánar tiltekið þann 29. desember.
„Ég er ekki kominn með andstæðing enn sem komið er. Það koma nokkrir til greina en því miður enginn sem er á topp 15. Sá eini sem stóð til boða þar sagði nei því hann er að skipta um þyngdarflokk. Það var Jorge Masvidal. Að öllum líkindum berst ég 29. desember.“
Ef af verður þá mun Gunnar, ólíkt flestum löndum sínum, æfa eins og brjálæðingur í desember og sleppa öllum kræsingunum þessi jólin.
„Það er svolítið langt síðan ég barðist og mig langar mikið að komast inn í búrið. Þetta er virkilega flott kvöld. Það verða svo vonandi einhverjir afgangar er ég kem heim,“ segir bardagakappinn léttur.
Gunnar segist ekki þekkja nöfnin á strákunum sem talað hefur verið um að hann mæti.
„Ég sagði bara við John þjálfara og pabba að ákveða þetta og senda mér hverjum ég mæti. Þá veit ég það bara. Ég vil bara fá bardaga. Auðvitað vildi ég mann á topp 15 en það er ekki í boði eins og er.“
Sjá má Búrið í heild sinni á Stöð 2 Sport í kvöld klukkan 21.35 en þar er farið ítarlega yfir bardagakvöld helgarinnar þar sem Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov mætast í aðalbardaganum.