Óli Stefán hefur náð góðum árangri með lið Grindavíkur síðustu ár en tilkynnti á dögunum að hann yrði ekki áfram með liðið. Sögusagnir hafa verið um að Óli Stefán sé á leið til Akureyrar og er það nú staðfest. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við KA í dag.
„Tilfinningin að koma norður er mjög góð. Ég þekki KA af góðu einu og veit að hér hefur verið unnið frábært starf síðustu ár. Ég veit líka að ég tek við góðu búi af frábærum þjálfara þannig að það að taka við KA er mikil áskorun fyrir mig,“ er haft eftir Óla Stefáni á heimasíðu KA.
Óli Stefán tekur við KA af Srdjan Tufegdzic sem hætti eftir nýafstaðið tímabil.