Okkar menn hafa nú spilað ellefu leiki í röð án þess að vinna og eru búnir að tapa tveimur í röð á Laugardalsvelli eftir að vera ósigraðir þar í sex ár.
Það er alveg ljóst að Ísland verður í B-deild Þjóðadeildarinnar þegar að annað tímabil hennar fer af stað eftir tvö ár og verður því ekki á meðal þeirra bestu á ný fyrr en eftir að minnasta kosti fjögur ár.
Strákarnir okkar eru einnig í mjög erfiðri stöðu þegar kemur að sæti í efsta styrkleikaflokki fyrir dráttinn til undankeppni EM 2020. Dregið verður 2. desember en undankeppnin verður spiluð frá mars til nóvember 2019.
Tíu af tólf liðunum í A-deild Þjóðadeildarinnar raða sér í efsta styrkleikaflokkinn en tvö neðstu verða með átta efstu þjóðunum úr B-deildinni í öðrum styrkleikaflokki. Ísland verður aldrei neðar en í öðrum flokki.

1. Spánn 6 stig (3 leikir)
2. Belgía 6 stig (2 leikir)
3. Portúgal 6 stig (2 leikir)
4. Sviss 6 stig (3 leikir)
5. Frakkland 4 stig (2 leikir)
6. England 4 stig (2 leikir)
7. Ítalía 4 stig (3 leikir)
8. Holland 3 stig (2 leikir)
9. Pólland 1 stig (3 leikir)
10. Þýskaland 1 stig (2 leikir)
11. Króatía 1 stig (2 leikir)
12. Ísland 0 stig (3 leikir)
Í grunninn er reikningsdæmið einfalt: Ísland þarf að skilja tvær þjóðir eftir fyrir aftan sig og ná að minnsta kosti tíunda sætinu til að verða í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður til undankeppni EM og komast hjá því að vera með bestu liðum álfunnar í riðli.
Staðan er augljóslega ekki góð þar sem að strákarnir okkar eru án stiga eftir þrjá leiki og eiga eftir útileik á móti Belgíu sem er í efsta sæti styrkleikalista FIFA ásamt heimsmeisturum Frakka.
En, með sigri þar kemst Ísland í þrjú stig en þarf þá samt sem áður að treysta á hagstæð úrslit í nokkrum leikjum og vonast til þess að einhver lið vinni ekki leik.

Þjóðverjar virðast enn í sama baslinu og á HM en þeir eru aðeins með aðeins eitt stig eftir tvo leiki. Þeir eiga leik í kvöld á móti Frakklandi. Þeir ljúka svo keppninni á móti Hollandi en ef Ísland vinnur Belgíu má Þýskaland ekki fá meira en eitt stig út úr þessum tveimur leikjum.
Króatar virðast svo fótboltaþunnir eftir silfrið á HM. Króatía er sömuleiðis með eitt stig og á eftir heimaleik á móti Spáni sem vann þá 6-0 í fyrri leiknum og ljúka svo Þjóðadeildinni á Wembley í Lundúnum. Króatar mega sömuleiðis bara fá eitt stig út úr þessum tveimur leikjum ef Ísland vinnur Belgíu.
Leikirnir sem skipta Ísland máli:
Í kvöld: Frakkland - Þýskaland
15. nóv: Króatía - Spánn
18. nóv: England - Króatía
19. nóv: Þýskaland - Holland
20. nóv: Portúgal - Pólland