Skoðun

Almenningur dreginn á þing

Þórlindur Kjartansson skrifar
Þingmenn Pírata lögðu fram í vikunni áhugaverða tillögu á Alþingi. Samkvæmt henni verða í hverjum mánuði dregin af handahófi nöfn tíu kjósenda og þeim gert að ávarpa Alþingi í tvær mínútur. Eins og svo oft áður eru Píratar skemmtilegir, frjóir í hugsun og óhræddir við að fara ótroðnar slóðir. Þetta eru eiginleikar sem almennt hefur lítt verið hampað í íslenskum stjórnmálum hingað til þar sem leiðindi, íhaldssemi, varkárni og blind höfðingjahollusta hafa jafnan talist mikilvægustu dyggðir þeirra sem vilja ná frama í starfi fjórflokksins.

Tillögunni er ætlað að tryggja að þingið verði í forystu við að efla lýðræði og þátttöku almennings í stjórnmálum, segir í greinargerð.

Framkvæmdin

En hvernig kæmi svona til með að virka? Maður gæti séð fyrir sér að þeir kjósendur sem eru svo heppnir að vera „dregnir upp úr lukkupottinum“ fái bréf (eða tölvupóst eða IM) frá þinginu um að þeir eigi að mæta á Austurvöll á tilteknum tíma til þess að tala í tvær mínútur við háttvirtan þingheim. Þessu hljóta kjósendur flestir að taka sem kærkomnu tækifæri og þeir undirbúa sig af kostgæfni, láta pressa bestu fötin og æfa ræðuna fyrir framan spegilinn.

Ég sé svo fyrir mér að tíu manna hópur kjósenda, hvaðanæva af landinu, mæti klukkan 13 á fimmtudegi í þinghúsið. Þetta væri vitaskuld þverskurður þjóðarinnar, fólk af báðum kynjum og á öllum aldri. Þarna væri kannski grunnskólakennari, pípari, sveitaprestur, ljóðskáld, hasshaus, verðbréfamiðlari, mannauðsstjóri, ræstitæknir, vörubílstjóri og einn handrukkari á bótum.

Það væri mikið látið með þennan viðburð. Forseti þingsins og starfsfólk myndu taka á móti hópnum, og teknar væru bæði ljósmyndir og hreyfimyndir með fullkominni lýsingu. Það væru haldnar ræður um mikilvægi þess að ekki myndist gjá milli þings og þjóðar, og að lifandi lýðræði væri undirstaða réttláts samfélags.

Svo myndu ræðumennirnir tíu koma inn í þingsal. Þar væru auðvitað allir þingmennirnir mættir og sætu sperrtir, með skilningsríkan og alþýðlegan svip. Þeir myndu allir tala um hversu þakklátir þeir væru að fá að heyra venjulegt fólk koma í þinghúsið og segja að afar þeirra og ömmur hefðu líka bara verið ósköp venjulegt fólk eins og þetta lið sem vann í lýðræðislottóinu og það væri bara oft mikið að marka venjulegt fólk, eins og afa þeirra og ömmur.

Mikið til í þessu

Ég sé fyrir mér að hinir lánsömu þinggestir tali almennt af kurteisi en þó muni einhverjir lesa hressilega yfir hausamótunum á þingmönnum og skamma þá fyrir að vera alltaf að rífast og alltaf í fríi, og þá munu þingmennirnir verða mjög ábúðarfullir á svip, kinka ákveðið kolli, taka fúslega á sig sökina, horfa svo hver til annars og kinka enn ákveðnar kolli, bíta aðeins í neðri vörina og hvísla svo sín á milli: „Það er mikið til í þessu hjá henni …“

Svo væri tíumenningunum boðið í te eða kaffi og kökur eða vöfflur og fengju að taka myndir af sér í þingflokksherbergjum, og sumir færu í viðtal við fréttamann og segðu frá reynslu sinni. Þingmennirnir myndu djóka með almenningi og taka sjálfur og setja á instasnappið. Gestirnir myndu segja að þessir þingmenn séu nú bara alveg ágætir og engir stjörnustælar í þeim. Og einhverjir myndu segja að þeir gætu alveg eins hugsað sér að gerast hreinlega bara sjálfir þingmenn. Og þingmennirnir myndu hlæja að því og finnast það ósköp krúttlegt.

Og kannski mun einhver hinna heppnu flytja ræðu sem slær í gegn og enda sjálfur á þingi þar sem hann situr mánaðarlega og hlustar á aðra óbreytta kjósendur koma og skamma þingmenn. Og þá horfir hann skilningsríkur á ræðumanninn og hvíslar svo til hinna þingmannanna: „Þetta er alveg rétt hjá henni …“.

Önnur leið

Reyndar er fræðilegur möguleiki á því að einhverjir sem af handahófi eru valdir til þess að halda tveggja mínútna ræðu yfir þingheimi kæri sig engan veginn um það. Ég veit um fólk sem myndi miklu frekar vilja vinna það í happdrætti að láta draga úr sér tönn án deyfingar heldur en að þurfa að tala í tvær mínútur í þingsal.

En kannski þarf Múhameð ekki að koma til fjallsins. Kannski kemur fjallið til Múhameðs. Væri ekki einmitt miklu meiri lærdómur fólginn í því ef einn dag í mánuði þyrfti Bjarni Ben að mæta á kassa í Krónunni í Borgarnesi, Katrín Jakobsdóttir á færibandið í Granda, Björn Leví á bensínstöð í Breiðholti, Áslaug Arna á humarveiðar frá Höfn, Sigmundur Davíð í mötuneyti í Austurbæjarskóla og Willum Þór Þórsson í Laugardalinn að þjálfa knattspyrnulandsliðið (bíðið … væri það kannski eitthvað).

En þetta er eflaust alltof róttæk hugmynd, meira að segja fyrir Pírata.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×