Skattgreiðendur gætu átt rétt á að fá upplýsingar um hver óskaði eftir og fékk persónuupplýsingar þeirra í hendur á vefsíðunni Tekjur.is. Þetta segir Jóhann Tómas Sigurðsson, lögmaður og annar eigandi Lagahvols.
Á síðustu vikum hefur verið fjallað um vefsíðuna Tekjur.is sem birtir upplýsingar um tekjur allra skattgreiðenda. Eru upplýsingarnar byggðar á skattskrá 2017 sem gefin er út af Ríkisskattstjóra. Notendur kaupa aðgang að vefsíðunni og geta í kjölfarið flett upp tekjum skattgreiðenda.
Lögbannskröfu á Tekjur.is var hafnað af sýslumanni í síðustu viku en Persónuvernd hóf í kjölfarið athugun á því hvort heimild væri fyrir vinnslu þessara upplýsinga. Hafði Viskubrunnur ehf., ábyrgðaraðili vefsins, frest til 23. október til að svara stofnuninni.
„Það hefur verið fjallað um ágreining um heimild til að vinna upplýsingarnar en réttindi skattgreiðenda, það er hins skráða, hafa fengið minni athygli. Þú sem skattgreiðandi getur sent fyrirspurn til þess sem er að vinna upplýsingarnar og honum ber þá skylda til þess að veita tilteknar upplýsingar,“ segir Jóhann Tómas.
Jóhann vísar í lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem tóku gildi í sumar en þannig voru ákvæði svokallaðrar GDPR-reglugerðar lögfest á Íslandi. Segir Jóhann að lögin veiti einstaklingum heimild til að óska eftir upplýsingum um hvaða notendur hafa flett upp tekjum viðkomandi frá því að vefsíðan fór í loftið.
„Þá vaknar sú spurning hvaða upplýsingar ábyrgðaraðilanum ber að veita. Það veltur á því hvort réttur skattgreiðanda, það er hins skráða, sé sterkari en réttur áskrifanda til þess að vera ekki nafngreindur. Ég tel að sterk rök hnígi að því en komi upp ágreiningur er það hlutverk Persónuverndar að skera úr um það.“
Jóhann segir að til þess að hægt verði að skera úr um málið þurfi skattgreiðandi að senda beiðni á Tekjur.is þess efnis að gefið verði upp hvaða áskrifendur hafi sótt upplýsingar um viðkomandi. Verði svar vefsins á þá leið að ekki sé unnt að nafngreina áskrifendurna er hægt að óska eftir áliti Persónuverndar.
„Það kann að vera niðurstaðan að nágranninn á efri hæðinni eða frændi þinn fái upplýsingar um það að þú hafir flett honum upp á vefnum. Hin sakleysislega uppfletting í skjóli nafnleyndar er því aldrei án ábyrgðar.“
Samkvæmt lögunum getur viðkomandi sent fyrirspurn reglulega, jafnvel í hverjum mánuði, og á rétt á að fá svör án endurgjalds, eða gegn hóflegu gjaldi. Þá ber vefsíðunni að bregðast við fyrirspurninni innan hæfilegs tíma, og í síðasta lagi mánuði eftir að fyrirspurnin barst.
KR
Njarðvík