Innlent

Umræður í lokuðum hópum fyrir þolendur einkennist oft af reiði og máttleysi þeirra sem hafa engin völd

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Anna Bentína Hermansen, kynjafræðingur og ráðgjafi hjá Stígamótum, sendir Jóni Steinari fyrrverandi hæstaréttardómara opið bréf.
Anna Bentína Hermansen, kynjafræðingur og ráðgjafi hjá Stígamótum, sendir Jóni Steinari fyrrverandi hæstaréttardómara opið bréf.
Anna Bentína Hermansen, kynjafræðingur og starfskona hjá Stígamótum, grasrótarsamtökum sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir þolendur kynferðisofbeldis, ákvað að taka áskorun Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögfræðings og fyrrverandi hæstaréttardómara, sem óskaði eftir því að eiga samtal við fólk sem hefur út á verk hans að setja.

Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu eftir að Jón Steinar skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann gerði gróf ummæli í sinn garð að umfjöllunarefni. Hann sagði að í Facebook hópnum „Karlar gera merkilega hluti“ hafi hann verið kallaður „viðbjóður“, „ógeð“ og „illfylgiskarlagerpi“ svo eitthvað sé nefnt.

Anna Bentína tekur fram að hún hafi ekki tekið þátt í umræðunum þar sem ofangreind ummæli voru látin falla. Nokkrir meðlimir hópsins sem tóku til máls með þessum hætti lýstu yfir óánægju sinni með ummæli sem Jón Steinar lét falla í viðtali á Eyjunni þar sem hann segir að Robert Downey, sem hlaut dóm fyrir kynferðisbrot gegn unglingsstúlkum, ætti skilið fyrirgefningu.

„Ég fullyrði það að þeim sem brotið er gegn, þeim myndi líða mikið betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu gegn alvarlegu broti – stundum eru brot miklu alvarlegri en þetta jafnvel allt upp í að svipta menn lífi. Þeir sem geta þróað með sér hugmynd um fyrirgefningu á slíku, þeim líður miklu betur heldur en þeim sem ætla að ganga sinn æviveg uppfullir af hatri gagnvart þeim einstaklingi sem vissulega hefur brotið af sér en afplánað refsingu sína samkvæmt lögum landsins,“ sagði Jón Steinar.

Jón Steinar hafi gengið of langt

Í opnu bréfi til Jóns Steinars segist Anna Bentína vera sammála honum að hann hafi ekki sætt málefnalegri gagnrýni í lokaða hópnum, enda sé það ekki tilgangur hópsins að vera málefnalegur.

„Flestir í þessum hóp hafa brennt sig illa á réttarkerfinu eða þekkja til fólks sem réttarkerfið hefur brugðist. Í þessum umræðum sem fram fóru varstu dreginn til ábyrgðar fyrir að ráðleggja þolendum umbjóðanda þíns að fyrirgefa ofbeldismanni þeirra. Þú varðir umbjóðanda þinn eins og þér bar en þú gekkst lengra með því að biðla þolendur hans um að fyrirgefa honum,“ sagði Anna Bentína í pistlinum.

Hún segir að framferði Jóns Steinars í fjölmiðlum um mál Roberts Downeys, hafi strokið mörgum öfugt „sér í lagi brotaþolum og aðstandendum þeirra sem eru í þessum hópi sem viðhöfðu ljótu orðin.“

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, hefur kallað eftir því að fá að ræða við fólk sem hafi eitthvað út á störf hans að setja.Fréttablaðið/Ernir

Lokaðir hópar farvegur fyrir óréttlætið

Anna Bentína, sem hefur frá árinu 2011 starfað náið með þolendum kynferðisofbeldis í starfi sínu hjá Stígamótum, segir að eðli kynferðisofbeldis sé þannig að sá sem fyrir því verði missi alla stjórn.

„Sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins og möguleiki hans að ráða og stjórna aðstæðum er tekinn af honum. Þegar brotaþoli ákveður að kæra, mætir hann sömu aðstæðum. Hann hefur enga lögsögu í málinu, hann verður vitni í eigin máli og hefur nákvæmlega ekkert um það að segja,“ sagði Anna.

Hún segir að í kjölfar #MeToo byltingarinnar hafi myndast lokaðir hópar á Facebook fyrir brotaþola og aðstandendur þar sem reynt er að skapa aðstæður sem eru öruggar fyrir þá. Í hópunum fari fram umræða sem einkennist oft af reiði og máttleysi þess sem hafi engin völd og hefur orðið fyrir barðinu á „ónothæfu einnota réttarkerfi sem ver ekki samfélagsþegna sína fyrir brotum sem á þeim eru framin.“

Það sé í lokuðum hópum á borð við „Karlar gera merkilega hluti“ sem þolendur fá farveg fyrir það óréttlæti sem þeir hafa orðið fyrir.

 

Máttleysisleg tilraun hins valdalausa

„Þarna getur það sagt Helvítis fokking fokk og beint reiði sinni að óréttlætinu sem það hefur orðið fyrir og það gerir það í krafti þeirrar sannfæringar að einhver hlusti og einhverjum standi ekki á sama. Það er gott að nú hafi þessir einstaklingar fengið athygli. Þó athyglin sé ekki jákvæð og allar þær málefnalegu umræður sem brotaþolar og aðstandendur þeirra hafa sett fram í bókum, pistlum og umræðum, séu máttleysisleg tilraun hins valdalausa að hafa einhver áhrif á réttarkerfi og viðhorf fólks til kynferðisbrota sem er í helvítis fokki,“ sagði Anna.

Í opna bréfinu skrifar Anna um sína reynslu af því að hafa verið beitt kynferðisofbeldi og máttleysið sem hún upplifði í baráttu sinni við íslenskt réttarkerfi. Þegar kæran var felld niður – án þess að hafa náð á dómsstig – hafi henni liðið eins og hún hafi orðið fyrir annarri nauðgun.

 

Hugsaði „Helvítis fokking fokk“ þegar Jón Steinar skilaði séráliti

„Þar missti ég alla trú á samfélaginu sem ég taldi vera öruggt. Ég trúði því að hér væru lög sem vernduðu þegna samfélagsins. Í innilokun minni næstu árin þar sem ég var óvinnufær og gat ekki tekið þátt í samfélaginu sökum kvíða og þunglyndis, varð ég mjög upptekin af dómum í kynferðisbrotamálum og þá kom nafnið þitt [Jón Steinar Gunnlaugsson] oft fyrir í séráliti sem þú skilaðir sem Hæstaréttardómari. Iðulega fórstu þar fram á sýknu þar sem þér fannst saksóknari ekki hafa sannað sekt ákærða. Jafnvel þótt játning hins ákærða lægi fyrir. Þú gerðir lítið úr greiningu á áfallastreitu og sagðir hana vafasamt gagn til að meta minningar brotaþola,“ lýsti Anna í bréfinu.

„Ég segi þér alveg eins og er að ég hugsaði oft Helvítis fokking fokk, þegar nafn þitt kom upp,“ sagði Anna.

Í samtali við Vísi sagði Anna að Jón Steinar hefði sagt sér að hann hygðist svara bréfi hennar.

Hér að neðan er hægt að lesa opið bréf Önnu Bentínu í heild sinni:






Tengdar fréttir

Fyrirgefningin

Fyrir helgina var birt grein eftir mig þar sem ég greindi frá sóðalegri orðræðu á "lokuðu svæði“ á fasbókinni þar sem ausið er illyrðum og óhróðri yfir nafngreinda einstaklinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×