Í tilkynninu frá Þorpinu segir að stefnt sé að því að ódýrustu íbúðirnar kosti innan við 20 milljónir króna. Útborgun, miðað við fjármögnunarmöguleika fyrstu kaupenda að íbúðarhúsnæði, verði því nálægt 3 milljónum króna hjá væntanlegum félagsmönnum samvinnufélagsins. Íbúðirnar eru í stöðluðum stærðum, stúdíóíbúðir, tveggja herbergja og þriggja herbergja.
Sjá einnig: Leiguverð hagkvæmra íbúða ekki hækkað án leyfis borgarinnar

Hverri íbúð í Gufunesi mun fylgja 15 fermetra grænmetisgarður og möguleiki verður til hænsnahalds. Húsunum fylgir sameiginlegt svæði til æfinga og útivistar sem tengist grenndarskógi við jaðar byggðarinnar og nýrri ylströnd. Þá segist félagið vilja leita samstarfs við Reykjavíkurborg varðandi tilraunaverkefni um uppbyggingu fullkominnar flokkunar- og endurvinnslustöðvar fyrir íbúa.
Þvottahús, kaffihús og grillaðstaða eru sameiginleg auk þess sem rafknúnir deilibílar fylgja íbúðum svo íbúar þurfa ekki hver og einn að eiga bíl. Sérstakur vatnastrætó mun síðan tengja hverfið beint við miðborg Reykjavíkur. Móttökustöð/deilibúr verður til staðar fyrir aðsendan mat og vörur sem íbúar panta á netinu og geta sótt þegar þeim hentar.
„Áhersla er á félagslegan fjölbreytileika og þann möguleika að ættliðir geti keypt íbúðir saman og deilt með sér ábyrgð á barnauppeldi. Þannig er gert ráð fyrir að 80% íbúða verði ráðstafað til fyrstu kaupenda á aldrinum 18-40 ára, 15% íbúða til fólks eldra en 40 ára með fjölskyldutengsl við kaupendur í fyrri hópnum og 5% íbúða til Félagsbústaða,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Kynningu Þorpsins á fyrirætlunum sínum í Gufunesi má sjá hér að neðan, þegar um 71 mínúta er liðin af myndbandinu.