Max Verstappen stóð uppi sem sigurvegari fyrir Red Bull í mexíkóska kappakstrinum um síðustu helgi. Allt leit út fyrir að Red Bull bílarnir myndu klára keppnina í fyrsta og öðru sæti en vélarbilun hjá Daniel Ricciardo gerði hins vegar út um þær vonir þegar aðeins níu hringir voru eftir.
Enginn hefur dottið úr leik oftar en Ricciardo í sumar og þar er aðalega um að kenna Renault vélinni í Red Bull bílunum.
Á næsta ári mun liðið skipta yfir í Honda vélar en japanski framleiðandinn hefur verið í samstarfi við dótturlið Red Bull, Toro Rosso, í ár.
Ekkert hefur gengið upp hjá Honda frá því þeir snéru aftur í Formúlu 1 árið 2015. Árangurinn með McLaren fyrstu árin var svo slæmur að enska liðið hætti samstarfinu síðasta vetur. Vélarframleiðandinn hefur lítið bætt sig á þessu ári með Toro Rosso.
„Við vitum að Red Bull bíllinn getur unnið 3-5 keppnir ár hvert,“ sagði Ben Anderson, blaðamaður Autosport tímaritsins í vikunni. „Á næsta ári verður Honda í fyrsta skiptið í þeirri stöðu að geta unnið keppnir, því verður pressan mun meiri.“
Christian Horner, stjóri Red Bull, er viss um að japanski vélarframleiðandinn mun bæta gengi liðsins á næsta keppnistímabili.
Daniel Ricciardo hefur alls unnið sjö keppnir með Red Bull en treystir augljóslega ekki Honda samstarfinu og ákvað því að fara yfir til Renault á næsta ári.
Segja má að samstarfið sé síðasti séns fyrir vélarframleiðandann að sanna sig í Formúlu 1 og verður því áhugavert að fylgjast með Red Bull Honda á næsta tímabili.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)