Kynafhjúpunarveislur verða æ vinsælli og keppist fólk gjarnan við að afhjúpa kyn barna þeirra á sem frumlegastan hátt. Dickey virðist hafa ætlað að sprengja skalann í frumleikakeppninni. Fyllti hann kassa af dufti og eldfimu efni.
Á kassanum stóðu orðin „boy“ og „girl“ eða „strákur“ og „stelpa“ með leiðbeiningum um að ef sprengingin yrði bleik ættu þau von á stelpu og strák ef sprengingin yrði blá. Því næst skaut Dickey með byssu á kassann með þeim afleiðingum að kassinn sprakk í tætlur.
Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi varð sprengingin blá. Sprengingin var hins vegar umtalsverð og dreifðist eldurinn í nærliggjandi kjarr og strá á skömmum tíma.
Í frétt KLTA í Arizonasegir að Dickey hafi þegar í stað hringt í lögreglu til þess að láta vita af eldinum og játa að hafa kveikt eldinn.
Eldurinn geisaði í um viku og olli gríðarlegu tjónu á umfangsmiklu svæði í Arizona, þar á meðal í Coronado-þjóðgarðinum í ríkinu, að því er kemur fram í frétt KLTA.
Dickey var á dögunum fundinn sekur um að hafa verið valdur af skógareldinum. Var hann dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi auk þess sem hann þarf að greiða átta milljóna dollara sekt, um einn milljarð íslenskra króna.
Landamæravörðurinn þarf þó ekki að greiða sektina alla í einu. Fyrst um sinn mun hann greiða 100 þúsund dollara, um 12 milljónir króna, og eftir það þarf hann að greiða mánaðarlegar greiðslur þangað til að sektin er greidd að fullu.