Karlmaður í Suður-Súdan hélt uppboð á Facebook og fékk 500 kýr, þrjá bíla og andvirði um milljónar króna. Í staðinn fékk kaupandinn að giftast sextán ára dóttur mannsins. Frá þessu greindu mannréttindabaráttusamtökin Plan International en uppboðssigurvegarinn kvæntist stúlkunni þann 3. nóvember síðastliðinn.
„Þessi villimannslega notkun tækninnar minnir á þrælauppboð fortíðarinnar. Það er gjörsamlega með ólíkindum að hægt hafi verið að selja stelpu í hjónaband á stærsta samfélagsmiðli nútímans. Og þótt það sé algengt að brúðarverð sé greitt í Suður-Súdan afsakar það ekki meðferð á þessari stelpu, sem er enn á barnsaldri,“ var haft eftir George Otim, æðsta erindreka samtakanna í Suður-Súdan. Hann sagði jafnframt að samtökin kölluðu eftir rannsókn yfirvalda á málinu.
Facebook sagði í svari við fyrirspurn CNet að uppboð sem þessi væru ekki liðin á Facebook. Innleggið hefði verið fjarlægt af samfélagsmiðlinum og faðirinn settur í bann.
Seldi dóttur sína á Facebook
Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
