Erlent

George Bush eldri látinn

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
George Bush eldri í Hvíta húsinu 5. júní 1989.
George Bush eldri í Hvíta húsinu 5. júní 1989. AP/Marcy Nighswander
Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George H.W. Bush eldri, er látinn 94 ára að aldri. Þetta kom fram í tilkynningu frá talmanni Bush-fjölskyldunnar snemma í morgun en þar er sagt að Bush hafi látist á heimili sínu í Houston upp úr klukkan tíu á föstudagskvöld. Eiginkona George Bush til sjötíu ára, Barbara Bush, lést í apríl á þessu ári.

George Herbert Walter Bush var fæddur 12. júní 1924. Hann var 41. forseti Bandaríkjanna og þjónaði í embætti þegar Sovétríkin féllu undir lok Kalda stríðsins. Þá hafði hann einnig setið sem þingmaður Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, var sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og forstjóri leyniþjónustunnar CIA.

Foreldrar hans voru Prescott Bush og Dorothy Walker. Bush gekk í herinn á 18 ára afmælisdaginn sinn og varð þar með yngsti flugmaðurinn í bandaríska sjóhernum á þeim tíma. Hann var í hernum til september 1945 þegar hann hóf nám við Yale háskólann, þaðan sem hann útskrifaðist 1948. Fertugur að aldri var hann orðinn milljónamæringur eftir að hafa starfað við olíuviðskipti.

Bush eldri bauð sig fram fyrir Repúblikanaflokkinn til embættis forseta Bandaríkjanna árið 1988 á meðan hann sat í stóli varaforseta. Því embætti gegndi hann í tvö kjörtímabil, í valdatíð Ronald Reagan frá 1981 til 1989. Hann tók við embætti forseta árið 1989 og gegndi því í eitt kjörtímabil eða til ársins 1993, eftir að hafa tapað í baráttunni um forsetastólinn við Demókratann Bill Clinton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×