Gunnar Nelson færist upp um tvö sæti á nýjum styrkleikalista veltivigtarinnar í UFC eftir sigurinn glæsilega á Brasilíumanninum Alex Oliveira um síðastliðna helgi. Hann er nú í tólfta sæti.
Sjá einnig:Gunnar Nelson þakkar fyrir sig á Fésbókinni
Gunnar var í fjórtánda sæti fyrir bardagann en Oliveira í þrettánda sæti en þessi sannfærandi sigur skýtur íslenska bardagakappanum upp í tólfta sætið.
Oliveira fellur um tvö sæti niður í fimmtánda sæti sem er það síðasta á styrkleikalistanum. Hann rétt hangir inni eftir að Gunnar blóðgaði hann með glæsilegu olnbogaskoti og hengdi hann svo með uppgjafartaki.
Ekkert breytist á toppnum í veltivigtinni en þar er Colby Covington áfram í fyrsta sæti sem helsti áskorandi meistarans Tyrons Woodley en Kamaru Usman er áfram í öðru sæti og Liverpool-maðurinn Darren Till í þriðja sæti.
Eins og greint var frá í gær var Gunnar sendur í að minnsta kosti 30 daga læknisleyfi eftir bardagann og má því ekki berjast aftur fyrr en á nýju ári.
Gunnar Nelson upp um tvö sæti á styrkleikalistanum

Tengdar fréttir

Gunnar Nelson þakkar fyrir sig á Fésbókinni: Minnti mig á af hverju ég geri þetta
Gunnar Nelson snéri aftur í búrið og pakkaði saman Brasilíumanninum Alex Oliveira í UFC um helgina.

Gunnar Nelson sendur í 30 daga leyfi
Gunnar Nelson má ekki æfa né berjast fyrr en á nýju ári.