„Við vorum að fá okkur ferska ávexti í gærkvöldi, fengum okkur melónu og þegar við skárum hana í sneiðar sáum við brúnan blett. Við skárum betur og fórum beint í nál,“ segir Kristján Berg, sem margir þekkja betur sem Fiskikónginn. Melónuna keypti hann í matvöruverslun á höfuðborgarsvæðinu á Þorláksmessu. Kristján segir að nálin hafi verið djúpt inni í ávextinum og ryðið umhverfis nálina bendi til að hún hafi dvalið lengi í aldinkjötinu.
Hann veltir fyrir sér hvort þessi fundur sé sambærilegur þeim sem fluttir hafa verið fregnir af víða um heim. Vísar Kristján þar til frétta sem bárust frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi í haust um að óprútnir aðilar hefðu laumað nálum í jarðaber. Fyrr í þessum mánuði bárust síðan sambærilegar fréttir frá Noregi en þar hafði einhver stungið nál inn í banana.
Kristján segist fyrst hafa haldið að um einhvers konar verðmerkingu væri að ræða inni í melónunni. „En ég vinn í verslun og maður er aldrei að hefta neitt í matvæli. Ég efast um að fólk sem er að verðmerkja matvæli, sérstaklega á Íslandi, séu eitthvað að stinga þeim í vöruna,“ segir Kristján.
Hann útilokar þó ekki að um eitthvað annað en nál kunni að vera að ræða. „En mér brá svolítið út af umræðunni undanfarið - að sjá þetta svona í matvælum hjá mér. Mér bara brá svolítið, ég verð að viðurkenna það,“ segir fiskikóngurinn Kristján Berg Ásgeirsson.
Nálar sjaldséðar í matvælum
Herdís Guðjónsdóttir, sem hefur eftirlit með matvælainnflutningi hjá Matvælastofnun, segir í samtali við fréttastofu að MAST hafi ekki áður borist tilkynningar um nálar í ávöxtum hér á landi. Þrátt fyrir að aldrei sé hægt að koma algjörlega í veg fyrir að að nálum sé stungið í matvæli segir Herdís að Matvælastofnun sé aðili að samevrópusku viðvörunarkerfi sem sendir út tilkynningar þegar slík mál komi upp í Evrópu - og MAST sé því vel vakandi.Hún gerir ráð fyrir því að heilbrigðiseftirlitið muni setja sig í samband við Kristján eftir hátíðirnar til að varpa betra ljósi á aðskotahlutinn, sem sjá má í færslu Kristjáns hér að neðan.