Innlent

Aldrei fleiri beðið þess að komast inn á Vog

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Framkvæmdastjóri SÁÁ, Arnþór Jónsson, segir biðlistann aldrei hafa verið lengri.
Framkvæmdastjóri SÁÁ, Arnþór Jónsson, segir biðlistann aldrei hafa verið lengri. VÍSIR/VILHELM
622 einstaklingar bíða þess nú að leggjast inn á Vog í áfengis- og vímuefnameðferð. Framkvæmdastjóri SÁÁ, Arnþór Jónsson, segir biðlistann aldrei hafa verið lengri.

„Við höfum séð það undanfarin ár að það dregur lítið eitt úr aðsókn í meðferð um hátíðarnar, en aðsóknin þyngist svo verulega strax eftir áramót.“ Arnþór sér þannig fram á að biðlistinn lengist enn frekar á nýju ári.

Hann bætir þó við að þeir sem eru yngstir, þeir sem séu veikastir og þeir sem séu að koma í sína fyrstu meðferð bíði skemur en aðrir.

„Konur bíða einnig skemur, enda hafa rannsóknir sýnt að þær sjálfar draga það á langinn að fara í meðferð.“ Meðalaldur sjúklinga á sjúkrahúsinu er 35 ár.

Arnþór segir örvandi vímuefnafíkn alvarlegasta. Örvandi efni valdi oftar geðrofi en önnur vímuefni og meiri geðhvörfum. Neysla slíkra efna valdi meiri taugaskaða en önnur vímuefni. Þá fylgi örvandi vímuefnafíkn mikið af líkamlegum fylgikvillum vegna slysa og neyslu í æð, til dæmis lifrarbólga og HIV. Arnþór segir tímabært að gripið verði inn í til þess að hjálpa þessum hópi áfengis- og vímuefnasjúklinga, sem jafnframt er alvarlega veikastur.

„Það er þó ekki gert og fjárframlög til meðferðar fyrir unga karla á aldrinum 18-39 ára, sem eru með alvarlega örvandi vímuefnafíkn, hafa eingöngu verið skorin niður.”

Hann segir vandann vaxandi. „Hann er átakanlegastur meðal ungra karlmanna. Á síðustu 20 árum hefur 2.851 karlmaður á aldrinum 18-39 ára greinst á sjúkrahúsinu með örvandi vímuefnafíkn. Af þeim var 121 látinn í lok ársins 2017.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×