Sport

25 ár liðin frá árásinni á Nancy Kerrigan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nancy Kerrigan og Tonya Harding.
Nancy Kerrigan og Tonya Harding. Vísir/Getty
Í janúarmánuði 1994 varð fólskuleg árás á bandarísku skautadrottninguna Nancy Kerrigan umsvifalaust að stærstu frétt íþróttaheimsins og um leið breyttist Tonya Harding í einn mesta skúrk íþróttasögunnar.  

Fjölmiðlar og aðrir hafa verið að rifja upp þetta sérstaka mál í dag og í gær en það væri þá ekki í fyrsta sinn sem þessar skautadrottningar væru á milli tannanna á fólki.

Fyrir aldarfjórðungi síðan voru skautadrottningarnar Nancy Kerrigan og Tonya Harding að keppa um sæti í Ólympíuliði Bandaríkjanna á leikunum í Lillehammer í Noregi. Þá gerðist atvik sem stal athygli alls heimsins.

6. janúar 1994 var ráðist á Nancy Kerrigan þegar hún var nýkomin af ísnum eftir æfingu fyrir bandaríska meistaramótið í Detroit. Það náðist ekki myndband af árásinni sjálfri en myndatökumenn komu á staðinn þegar Nancy Kerrigan sat hágrátandi á gólfinu og öskraði: Af hverju ég?

Árásamaðurinn reyndist vera félagi Jeff Gillooly, eiginmanns Tonyu Harding - helsta keppinautar Kerrigan. Var markmiðið að koma í veg fyrir að Kerrigan kæmist á leikana í Lillehammer.

Allt frá þessum degi fyrir 25 árum síðan hafa nöfn Nancy Kerrigan og Tonya Harding verið tengd og nú síðast var gerð Hollywood kvikmynd um málið. Hér fyrir neðan má sjá stutta heimildarmynd um málið.





Málið greip athygli heimsins enda sett upp eins og handrit að góðri bíómynd með bandarískri skautaprinsessu sem hetju og strákastelpu sem skúrki.  

Heimurinn fylgdist með og þegar þær mættu báðar á Vetrarólympíuleikana í Lillehammer komust miklu færri að en vildu.

Nancy Kerrigan náði sér af meiðslunum og vann silfurverðlaun á leikunum. Tonya Harding náði ekki nema áttunda sæti.

Fólk á Twitter hefur verið að rifja upp árásina á Nancy Kerrigan og eftirmála þessa máls í tilefni af þessum tímamótum.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×