Sagan fjallar um menningarárekstra, valdaójafnvægi og mannlega bresti en Gísella, persónan sem Elma Lísa leikur, gerist leigusali tveggja innflytjenda.

„Við“ og „þau“
„Það má segja að Auður hafi verið á undan sinni samtíð þegar hún skrifaði bókina. Sagan á akkúrat erindi við samfélagið í dag og er hárbeittur spegill: „þær“ og „hún“, „við“ og „þau“,“ segir Elma.
„Sambúð kvennanna í myndinni kemur til eftir að Gísella kynnist aðstæðum innflytjenda þegar hún fær vinnu við að fjalla um húsnæðismál útlendinga. Sjálf stendur hún á tímamótum, þarf í fyrsta skipti á ævinni að hafa áhyggjur af peningum og til að ná endum saman býður hún tveimur konum að flytja inn til sín. Sú ákvörðun dregur dilk á eftir sér. Bakgrunnur kvennanna og reynsluheimur er ólíkur, menning þeirra og smekkur. Allt stangast á og árekstrar verða.

„Þegar ég las bókina á sínum tíma fór Gísella í taugarnar á mér. Það var áskorun að finna mennskuna í henni. Mér tókst það samt á endanum. Öll erum við marglaga og Gísella er það auðvitað líka, mótuð af sínum reynsluheimi. Það er Gísella í okkur öllum.
Ég er mjög hrifin af verkum Auðar Jónsdóttur og kom að uppsetningu verksins Fólkið í kjallaranum á sínum tíma í Borgarleikhúsinu, upp úr samnefndri bók Auðar. Það er gaman að gera bíó eða leikhús upp úr góðum bókum og vel skrifaða karaktera er gaman að gæða lífi. Gísella er mitt stærsta hlutverk í bíómynd og auðvitað var það áskorun í sjálfu sér að vera nánast í hverjum ramma,“ segir Elma Lísa.

Tryggð verður frumsýnd 1. febrúar.

Tryggð - Kynningarstikla from Askja Films on Vimeo.