Stjórnarandstaðan í Venesúela með Juan Guaidó, starfandi forseta [að nafninu til], í fararbroddi leitast nú við að halda áfram að þrýsta á ríkisstjórn Nicolás Maduro forseta eftir fjöldamótmæli miðvikudagsins.
Stjórnarandstaðan, sem fer með völdin á venesúelska þinginu, álítur Maduro valdaræningja og kosningar síðasta árs ólöglegar. Maduro er ekki sammála enda álítur hann hið tiltölulega nýstofnaða stjórnlagaþing, sem sósíalistar stýra, hærra sett. Valdafólk utan Venesúela kepptist í gær og á miðvikudag við að taka afstöðu með ýmist Maduro eða Guaidó. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist styðja Guaidó á miðvikudag og í gær tók Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sömu afstöðu í símtali við Guaidó. Fjölmörg önnur ríki Rómönsku-Ameríku styðja forsetann aukinheldur og Frakkar, Bretar, Þjóðverjar og fleiri lýsa því yfir að kosningar síðasta árs hafi verið ólöglegar.
Maduro á líka sína bandamenn. Sergeí Ríjabkov, varautanríkisráðherra Rússa, sagðist vara við því að Bandaríkin skiptu sér af ástandinu í Venesúela. „Rússland styður bandamann sinn, vinveitta Venesúela.“
Hua Chunying, upplýsingafulltrúi hjá kínverska utanríkisráðuneytinu, var á sama máli í gær. „Kína styður viðleitni ríkisstjórnar Venesúela til þess að skýla fullveldi sínu, sjálfstæði og stöðugleika.“

