Áform Skógræktarfélags Hafnarfjarðar um ræktun í námu við Bláfjallaveg virðast ekki ætla að ganga eftir. Skógræktarfélagið kvaðst í erindi til Hafnarfjarðarbæjar vilja fá námuna og svæðið í norðanverðum Undirhlíðum til ræktunar.
Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis mælir hins vegar gegn því varðandi námuna. Hún var opnuð í tengslum við gerð Bláfjallavegar og lokað fyrir nokkrum árum.
„Náman er inni á fjarsvæði vatnsverndar vegna vatnsbólanna í Kaldárbotnum. Botn hennar er klöpp og skammt niður á grunnvatn sem líkur eru á að geti streymt til vatnsbóla Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Ljóst er að ef farið verður í áformaða skógrækt innan marka námunnar þurfa að koma til miklir flutningar á jarðvegi og hrossataði eða öðrum áburðarefnum,“ bendir heilbrigðiseftirlitið á í umsögn til bæjaryfirvalda.
„Heilbrigðiseftirlitið telur ótímabært að verða við erindinu fyrr en niðurstöður úr rannsóknum liggja fyrir og að sýnt hafi verið fram á að öryggi vatnsbólanna verði ekki stefnt í hættu,“ segir í umsögninni. Skógræktarfélagið vill námuna undir ræktun á jólatrjám. „Náman verður fyrst og fremst notuð til að gera tilraunir með ræktun sígrænna trjátegunda, sem gætu hentað sem jólatré.“
Umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar hafnaði á miðvikudag erindi skógræktarfélagsins á grundvelli álits heilbrigðiseftirlitsins. Jónatan Garðarsson, stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og formaður þess er erindið var sent 2017, segir álit heilbrigðiseftirlitsins byggt á misskilningi.
„Það verða engin efni sett í jörðu. Ætlunin er að dreifa fræjum af furu og greni og það verður látið spretta af sjálfu sér á náttúrulegan hátt,“ segir Jónatan Garðarsson.
„Þeir hafa ekki einu sinni leitað til okkar til að kanna málið. Furan er best í svona grýttu, rýru landi og það að setja mold þarna myndi eyðileggja svæðið. Og hrossaskítur þarf ekki að vera þarna; það þarf ekki að vera neinn áburður. Þetta þrífst algjörlega án hans.“
Synjað um námu fyrir jólatré við Bláfjallaveg
Garðar Örn Úlfarsson skrifar

Mest lesið




Banaslys varð í Vík í Mýrdal
Innlent


Hvernig skiptast fylkingarnar?
Innlent




„Við gefumst ekki upp á ykkur“
Innlent