Erlent

Japanir stefna að því að viðurkenna ainufólkið

Atli Ísleifsson skrifar
Ainufólk í bænum Shiraoi á Hokkaido árið 2017.
Ainufólk í bænum Shiraoi á Hokkaido árið 2017. Getty
Eftir langa sögu mismununar og ofsókna stefna Japanir nú að því að viðurkenna þjóðarbrotið ainu. Ríkisstjórnin í Japan hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér að ainufólkið fái stöðu frumbryggja í Japan.

Ainufólkið býr flest á norðurhluta eyjunnar Hokkaido. Ainufólk hefur lengi neyðst til að skipta um nafn og verið meinað að veiða dýr á sinn hefðbundna máta. Undir lok nítjándu aldar bönnuðu japönsk stjórnvöld ainu að tala tungumál sitt og fyrir vikið lifir tungumál fólksins einungis meðal mjög fámenns hóps.

Frumvarp japönsku ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að fjárhagslegur og félagslegur stuðningur við ainufólkið verði aukinn, en nokkur munur er á menntun og meðaltekjum ainu og annarra Japana.

„Þetta er fyrsta skrefið í þá átt að tryggja jafnrétti samkvæmt lögum,“ segir Mikiko Maruko, sem fer fyrir réttindabaráttu ainu í höfuðborginni Tókýó.

Ekki er ljóst hvað margir tilheyra ainu, en rannsókn frá árinu 2017 gerir ráð fyrir að þeir telji um 12.300. Raunverulegur fjöldi kann að vera hærri þar sem margir úr hópi þeirra hafa falið uppruna sinn af ótta við ofsóknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×