Körfubolti

Hetjudáðir í lokin hjá Luka fyrir framan stóran hóp af löndum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic fagnar einni af körfum sínum á lokakaflanum en Seth Curry er ekki eins sáttur.
Luka Doncic fagnar einni af körfum sínum á lokakaflanum en Seth Curry er ekki eins sáttur. AP/Tony Gutierrez
Nýja súperliðið í Philadelphia fór létt með LeBron og félaga í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, tvö vítaskot DeMarcus Cousins nokkrum sekúndum fyrir leikslok tryggðu meisturum Golden State Warriors nauman heimasigur og Dallas Mavericks vann endurkomusigur þökk sé frábærum fjórða leikhluta hjá nýliðanum Luka Doncic.





Joel Embiid var með 37 stig og 14 fráköst þegar Philadelphia 76ers vann 143-120 sigur á Los Angeles Lakers. Þetta var annar leikur Sixers síðan að liðið fékk til sín Tobias Harris frá Los Angeles Clippers. Harris var með 22 stig í þessum leik, JJ Redick skoraði 21 stig og Jimmy Butler var með 15 stig.

Það var mikil stemmning í Philadelphia en þetta var stórleikur dagsins í bandaríska sjónvarpinu og lætin minntu helst á leik í úrslitakeppninni. Philadelphia 76ers hefur unnið báða leiki sína eftir að Tobias Harris kom og liðið lítur afar vel út.

Kyle Kuzma skoraði 39 stig fyrir Lakersliðið og LeBron James vantaði eina stoðsendingu í þrennuna en hann endaði með 18 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar.





Nýliðinn Luka Doncic skoraði 13 af 28 stigum sínum í fjórða leikhluta þegar Dallas Mavericks vann 102-101 endurkomusigur á Portland Trail Blazers. Dallas vann upp fimmtán stiga forskot í lokaleikhlutanum.

Doncic var einnig með 9 frákös og 6 stoðsendingar en hetjudáðir hans í síðasta leikhlutanum voru við hæfi þar sem á leikinn var mættur hundrað manna hópur frá Slóveníu sem hafði ferðast um langan veg til að fylgjast með sínum manni.

Damian Lillard skoraði 21 af 30 stigi sínum í seinni hluta þriðja leikhlutans og hjálpaði Portland að ná 96-81 forystu í byrjun fjórða leikhluta.

Það verður fróðlegt að fylgjast með Luka Doncic í næstu leikjum því slóvenski aðdáandahópurinn mun mæta á næstu tvo leiki. Sá fyrri er í Houston en sá seinni er þegar Miami Heat kemur í heimsókn.

Hópurinn ætlaði að sjá einvígið á milli Luka Doncic og landa hans Goran Dragic hjá Miami en ekkert verður af því. Dragic er enn frá vegna meiðsla og missir af þessum leik.





Kevin Durant skoraði 39 stig í 120-118 heimasigri Golden State Warriors á Miami Heat en það var hins vegar DeMarcus Cousins sem tryggði liðinu sigurinn með því að setja niður tvö vítaskot 5,4 sekúndum fyrir leikslok. Cousins hafði þá náð sóknarfrákasti eftir misheppnað skot Durant og fiskað vítaskot.

Miami Heat komst 19 stigum yfir í fyrsta leikhlutanum en Golden State sýndi styrk með því að koma til baka. Þetta var í ellefta skiptið á tímabilinu sem Golden State vinnur leik eftir að hafa lent tíu stigum undir. Liðið kom til baka á föstudagskvöldið eftir að hafa lent 17 stigum undir á móti Phoenix Suns.

Klay Thompson skoraði 29 stig fyrir Golden State og Stephen Curry var með 25 stig. Josh Richardson var frábær í byrjun og endaði leikinn með átta þrista og 37 stig fyrir Miami.













Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Golden State Warriors - Miami Heat    120-118    

Atlanta Hawks - Orlando Magic    108-124    

Sacramento Kings - Phoenix Suns    117-104    

Philadelphia 76ers - Los Angeles Lakers    143-120    

Dallas Mavericks - Portland Trail Blazers    102-101   

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×