Írska lögreglan kom ákalli sínu á framfæri á Facebook síðu lögreglunnar ytra og birti nýja mynd úr öryggismyndavél. Á myndinni má sjá að Jón er dökkklæddur og með sígarettu í munnvikinu.
Jón Þröstur fór til Dyflinnar á Írlandi ásamt unnustu sinni um þar síðustu helgi til að skoða kastala og taka þátt í pókermóti. Hann hélt út frá hótelinu sem þau dvöldu á um hábjartan dag án síma, veskis og vegabréfs og hefur ekki sést síðan.
„Þrátt fyrir leit hefur hann enn ekki fundist. Fjölskylda hans er áhyggjufull og vill ná sambandi við hann og hefur áhyggjur af velferð hans,“ segir í stöðuuppfærslunni.
Lögreglan biðlar til almennings að hafa samband ef einhver telur sig búa yfir upplýsingum eða vísbendingum. Viðkomandi er bent á að hafa samband í síma 01 6664400 en einnig er hægt að koma á framfæri ábendingum nafnlaust í síma 1800 666 111. Þá er hægt að koma upplýsingum á framfæri á öllum lögreglustöðvum á Írlandi.