Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í ávarpi á þinginu í gær að ósjálfbær neysla hafi farið úr böndunum með skaðlegum áhrifum á umhverfið og loftslagið.
Guðmundur Ingi hvatti gesti umhverfisþingsins í gær til að skilja ekki einn matvörupoka af þremur eftir í matvöruverslunum heimsins. Vísar hann þar til þess að þriðjungi matvæla í heiminum er hent.
Í erindi sínu lagði ráðherra meðal annars áherslu á neyslu, sóun, náttúruvernd og baráttu gegn plastmengun. „Og þar lagði ég áherslu á það að þjóðir heims þurfa að ná utan um plastmálin á alþjóðavettvangi. Plastmengunin á sér engin landamæri. Og þess vegna þarf þetta að vera sameiginlegt verkefni allra þjóða,“ segir Guðmundur Ingi.
Umhverfis- og auðlindarráðherra ræddi áætlanir íslensku ríkisstjórnarinnar í ávarpi sínu. Hann sagði áhersluna vera á náttúruvernd og benti á að unnið væri að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, sem yrði langstærsti þjóðgarður í Evrópu.
„Og ég nefndi líka það atriði að þegar við erum að horfa til lausna í umhverfismálum þá reynum við að líta til samlegðar þeirra aðgerða sem við grípum til þannig að þær geti nýst til að leysa sem flestar umhverfisáskoranir í einu. Til dæmis má nefna landgræðslu sem er mjög gott dæmi. Græðir til baka land sem hefur eyðst, nær til baka náttúrunni og breytileika lífríkisins og bindur koltvísýring úr andrúmslofti sem er gott til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.“