Ástralski kardinálinn George Pell var í gærkvöldi dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að misnota tvo ástralska drengi kynferðislega.
Pell, sem er fyrrverandi fjármálaráðherra í Vatíkaninu, er háttsettasti einstaklingurinn innan Kaþólsku kirkjunnar sem dæmdur hefur verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Pell misnotaði drengina, sem voru þrettán ára gamlir kórdrengir, í dómkirkjunni í Melbourne árið 1996.
Kardinálinn, sem er sjötíu og sjö ára gamall heldur enn fram sakleysi sínu og hefur áfrýjað dómnum. Dómarinn sem ákvarðaði refsingu Pell var hinsvegar afdráttarlaus í orðum sínum og sagði Pell hafa framið bíræfið ofbeldisverk þegar hann misnotaði drengina tvo.
Sakfelling Pell hefur hrist stoðir kaþólsku kirkjunnar á heimsvísu, en hann var einn nánasti samstarfsmaður páfa um árabil.
