Erlent

Játaði að hafa rænt þrettán ára stúlku og myrt foreldra hennar

Sylvía Hall skrifar
Patterson rændi hinni þrettán ára gömlu Jayme Closs í október á síðasta ári.
Patterson rændi hinni þrettán ára gömlu Jayme Closs í október á síðasta ári. Facebook
Jake Thomas Patterson, 21 árs gamall maður, hefur játað að hafa rænt hinni þrettán ára gömlu Jayme Closs og myrt foreldra hennar í október á síðasta ári. Stúlkan fannst á lífi þann 10. janúar eftir að hafa verið saknað síðan í október. BBC greinir frá. 

Í skiptum fyrir játninguna verður Patterson ekki ákærður fyrir þá glæpi sem hann framdi í Douglas-sýslu í Wisconsin-fylki Bandaríkjanna en þar hélt hann Closs fanginni þar til hún slapp.

Patterson þekkti Closs ekki áður en hann myrti foreldra hennar og rændi henni en hafði séð hana stíga inn í skólarútu. Talið er að hann hafi gert tvær tilraunir til þess að ræna henni en alltaf hætt við áður en hann lét til skarar skríða þann 15. október. Þá fór hann inn á heimil fjölskyldunnar, skaut föður stúlkunnar og fann hana ásamt móður sinni inni á baðherbergi. Þar skaut hann móður hennar, batt stúlkuna og hafði hana á brott með sér.

Í ákærunni kemur fram að Patterson neitaði Closs oft um mat og vatn og lét hana dvelja undir rúmi í allt að tólf tíma í einu. Yfir jólin er hann sagður hafa farið og heimsótt ömmu sína og afa á meðan stúlkan faldi sig undir rúmi og þorði ekki að hreyfa sig vegna hótanna hans.

Daginn sem Closs slapp hafði Patterson farið úr húsi og sagt henni að halda kyrru fyrir. Hún hafi ákveðið að flýja og bað ókunnuga konu í nágrenninu um hjálp sem fór með stúlkuna til nágranna og hringdi þar á lögreglu.

Patterson á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.    


Tengdar fréttir

Jayme Closs fær sjálf fundarlaunin

Bandaríska stúlkan Jayme Closs fannst á vegi í Wisconsin þann 10. janúar síðastliðinn eftir að hafa verið haldið fanginni af 21 árs karlmanni í 88 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×