Atlantshafsbandalagið á sjötugsafmæli í apríl og er í dag sjötíu ár frá því að Alþingi ákvað að Ísland yrði stofnaðili að bandalaginu. Á sama tíma fóru mikil mótmæli fram vegna þess og segir Andrés Ingi þjóðina aldrei hafa verið spurða um það framsal á fullveldi sem í því fólst.
„Í gegnum NATO hefur Ísland ítrekað orðið aðili að stríðsátökum, ýmist beint eða óbeint. Auk þess eru kjarnorkuvopn grundvallarþáttur í hernaðarstefnu NATO sem byggist á því að bandalagið áskilur sér rétt til beitingar kjarnorkuvopna að fyrra bragði.“
Andrés Ingi segir aðild landsins að bandalaginu stangast á við þá ímynd sem almenningur hefur af Íslandi og hún gangi þvert á þann friðarboðskap sem við getum komið á framfæri sem herlaus þjóð.
Hann segir 44% Íslendinga halda að Ísland sé hlutlaust í hernaðarmálum og 57% telja öryggi Íslands best tryggt með herleysi og friðsamleg tengsl við nágrannaríki en aðeins 17% telja aðild að NATO stuðla að því.
Ásamt Andrési Inga eru flutningsmenn þau Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.