Innlent

Ný gatnamót á Sæbraut við Frakkastíg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á myndinni má sjá hvernig nýju gatnamótin munu koma til með að líta út. Umferðarljós verða á gatnamótunum sem talin eru nýtast ferðamönnum sem reglulega ganga yfir Sæbraut.
Á myndinni má sjá hvernig nýju gatnamótin munu koma til með að líta út. Umferðarljós verða á gatnamótunum sem talin eru nýtast ferðamönnum sem reglulega ganga yfir Sæbraut.
Frakkastígur verður tengdur Sæbraut með nýjum gatnamótum og hefjast framkvæmdir á næstu dögum.  Auk framlengingar á Frakkastíg út að Sæbraut verður gatan endurgerð milli Skúlagötu og Lindargötu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Gatnamótin nýju verða ljósastýrð og mun það að sögn borgaryfirvalda bæta mjög öryggi gangandi vegfarenda.

„Margir þeirra, sérstaklega ferðamenn, fara þvert yfir Sæbrautina frá Frakkastíg að Sólfarinu og hefur þar oft legið við slysum.“

Frakkastígur mun halda áfram að Sæbraut.
Hluti af framkvæmdinni er uppsetning götulýsingar, færsla á strætóbiðstöð og göngustígar. Snjóbræðslu verður komið fyrir og lagnir veitustofnana endurgerðar. Að nýframkvæmdum loknum verður núverandi tengigata á móts við Skúlagötu 20 og það sem henni tilheyrir fjarlægt og tyrft yfir svæðið.

Fleiri framkvæmdir á Sæbraut eru á dagskrá. Tvenn önnur gatnamót verða endurbætt, annars vegar við Snorrabraut og hins vegar við Katrínartún.  Umferðarljósabúnaður, gönguleiðir yfir gatnamótin og götulýsing verður endurbætt á báðum stöðum og þá verður hægri beygjurein til austurs frá Snorrabraut út á Sæbraut lögð af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×