Baghdadi hefur ekki sést í fimm ár, en árið 2014 steig hann fram og lýsti því stofnun kalífadæmis á svæðum í Sýrlandi og Írak. Í þessu myndbandi gengst Baghdadi við því að samtökin hafi tapað Baghuz, síðasta vígi þeirra á svæðinu.
Ekki er vitað hvenær myndbandið var tekið upp en samtökin segja það hafa verið í apríl.
Var myndbandið birt á miðli samtakanna, al-Furqan.
Baghdadi fullyrðir að hryðjuverkaárásin í Srí Lanka á páskadag hafi verið hefnd samtakanna eftir að þau misstu bæinn Baghuz í Írak.
Greint er frá því á vef breska ríkisútvarpsins BBC að í fyrri fullyrðingum samtakanna um ábyrgð þeirra á ódæðinu í Srí Lanka hafi hvergi verið minnst á bæinn.
Baghdadi segist hafa fengið stuðning frá herskáum hópum í Burkina Faso og Mali og segir að heilagt stríð sé eina lausnin gegn harðstjórum.
Hann hverfur þó við lok myndbandsins og heyrist aðeins ræða árásirnar í Srí Lanka.
Síðast heyrðist til Baghdadi á hljóðupptöku sem var opinberuð í ágúst síðastliðnum þar sem hann virtist reyna að beina athygli frá lamandi tjóni sem samtökin höfðu orðið fyrir.