„Það er áhugavert að sjá að flutningstapið sé að aukast. Vitaskuld munum við alltaf horfa upp á einhver flutningstöp í kerfinu, hjá því verður ekki komist,“ segir Sverrir Jan. „Hins vegar er flutningstapið núna jafn mikið og aflið úr Svartsengi svo þetta eru nokkuð stórar tölur.“
Svartsengisvirkjun er jarðvarmavirkjun sem framleiðir bæði hita og rafmagn. Hún framleiðir um 75 megavött af raforku árlega.
Ástæður þess að við töpum svo mikilli orku að mati Sverris er að flutningskerfið er ekki nægilega í stakk búið til að takast á við þessa flutninga. Flutningi á orku í gegnum raflínur svipar til flutnings á fólki og vörum eftir þjóðvegum landsins. Sé flutningskerfið ekki nægilega gott er hætt við því að við missum verðmæti.

Í fyrra nam framleiðsla raforku tæpum 20 þúsund gígavattstundum og jókst um 3,1 prósent frá fyrra ári. Til samanburðar er aukningin jafn mikil og öll notkun raforku á Suðurlandi.
Notkun stórnotenda jókst um 2,6 prósent frá fyrra ári og almenn notkun jókst um 4,4 prósent. Því jókst flutningstapið hlutfallslega meira á síðasta ári en notkunin.
Raforkuframleiðsla og notkun hefur breyst gríðarlega á öldinni. Á síðasta áratug hefur raforkuvinnsla aukist um 3.360 gígavattstundir sem jafngildir 80 prósentum af notkun allra heimila og almenns atvinnulífs. Að sama skapi er áætlað að notkun raforku aukist jafnt og þétt til ársins 2050.