Minnst 207 manns eru látnir og minnst 450 særðir eftir átta sprengjuárásir sem gerðar voru á kirkjur, hótel og fleiri byggingar á Srí Lanka í dag. Talið er að minnst 32 hinna látnu séu erlendir. Þar af einhverjir frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Kína og Portúgal.
Ríkisstjórn Srí Lanka segist hafa búið yfir upplýsingum um árásir á kirkjur og þær upplýsingar hafi snúið að lítt þekktum samtökum íslamista. Lítið hafi verið aðhafst vegna þeirra upplýsinga. AP fréttaveitan segir afar fá tilfelli í sögu Srí Lanka um að öfgasamtök múslima hafi gripið til ofbeldis þar í landi.
Hins vegar hefur nokkuð verið um ofbeldi gegn kristnu fólki á undanförnum árum.
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum. Þó er óttast að þær muni leiða til ofbeldis á milli trúarfylkinga á Srí Lanka. Lögreglan segir að bensínsprengju hafi verið kastað í mosku og kveikt hafi verið í tveimur verslunum sem reknar eru af múslimum á Srí Lanka í dag.Samkvæmt tölum frá 2012 voru 70 prósent um 22 milljóna íbúa Srí Lanka búddistar. 12,6 prósent voru hindúar, 9,7 prósent íslamstrúar og 7,6 prósent kristnir.
Ríkisstjórn landsins setti á útgöngubann í Colombo í dag og lokaði á aðgang fólks að samfélagsmiðlum. Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra Srí Lanka sagðist í dag óttast að ódæðið leiði til óaldar í landinu og hefur heitið því að finna hina seku.
AFP fréttaveitan segir áðurnefndar upplýsingar hafa borist til Srí Lanka frá erlendri leyniþjónustu fyrir tíu dögum síðan. Þær upplýsingar innhéldu viðvörun við því að samtök sem kallast NTJ (National Thowheeth Jama´ath) hafi ætlað að framkvæma sjálfsmorðsárásir í kirkjum og víðar.