Innlent

Bensínstöðvarræningi réðst inn á heimili við Kambsveg og særði húsráðanda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn kom við á bensínstöð Orkunnar við Kleppsveg og rændi þar peningum áður en hann réðst inn í íbúðarhúsið.
Maðurinn kom við á bensínstöð Orkunnar við Kleppsveg og rændi þar peningum áður en hann réðst inn í íbúðarhúsið. Vísir/Kolbeinn Tumi
Karlmaður í annarlegu ástandi rændi bensínstöð og réðst svo inn í nærliggjandi íbúðarhús í Langholtshverfi í Reykjavík um kvöldmatarleytið í gær. Húsráðandi særðist töluvert í átökum við manninn en lögregla handtók þann síðarnefnda eftir að hafa yfirbugað hann með piparúða.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið handtekinn. Fyrst hafi hann rænt peningum á bensínstöð Orkunnar við Kleppsveg og hlaupið þaðan inn í íbúðarhús við Kambsveg um sjöleytið.

Til átaka kom milli heimilisföðurins og mannsins og særðist sá fyrrnefndi töluvert í andliti. Þá hafi maðurinn náð í hníf, sem hann náði þó aldrei að beita, og hótað húsráðanda.

Maðurinn hafi svo hlaupið út úr húsinu og í flasið á lögreglumönnum. Þeir hafi yfirbugað manninn með piparúða og handtekið hann. Heimilisfaðirinn var fluttur á slysadeild eftir átökin við manninn en er ekki alvarlega særður.

Áfallateymi Rauða krossins var kallað út á vettvang í gær en Guðmundur segir að fólkið sem statt var á bensínstöðinni, svo og heimilismenn að Kambsvegi sem urðu vitni að því þegar ráðist var á heimilisföðurinn, hafi verið í miklu áfalli.

Maðurinn gisti fangageymslu lögreglu í nótt. Að sögn Guðmundar hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum en það verði skoðað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×