Körfubolti

Steph Curry skaut Portland í kaf

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Curry einbeittur eftir leik í nótt.
Curry einbeittur eftir leik í nótt. vísir/getty
Golden State Warriors er komið í 1-0 í einvígi sínu gegn Portland Trailblazers í úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar eftir sannfærandi sigur í nótt, 116-94.

Það var enginn Kevin Durant í liði Warriors þar sem hann er meiddur en það skipti engu máli. Stephen Curry kom sér í gírinn, setti niður níu þrista og endaði með 36 stig í leiknum. Klay Thompson kom næstur með 26 stig.





Stjörnur Portland, Damian Lillard og CJ McCollum, fundu sig ekki í leiknum. Þeir skoruðu samtals 36 stig og hittu aðeins úr 11 af 31 skotum sínum.

Þeir voru einnig samtals með 10 tapaða bolta. Portland hefur ekki efni á því enda hafa þeir verið með 54 stig samtals í úrslitakeppninni.

„Við vorum að spila lélegan varnarleik á Curry. Við verðum að laga það fyrir næsta leik. Þeir fengu í raun að gera allt sem þeir vildu gera og við leyfðum þeim það. Það er ekki vænlegt til árangurs,“ sagði Lillard.

„Að sama skapi útfærðu þeir sinn varnarleik mjög vel og áttu svör við okkur. Við eigum mikið inni og verðum að svara eins og menn í næsta leik.“

Hér má sjá Dell og Sonya Curry fyrir leik í gær en synir þeirra, Steph og Seth, eru að mætast í einvíginu. Þau mættu því í sitt hvorri treyjunni.vísir/getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×