Innlent

„Ákaflega æskilegt“ að Miðflokksmenn hugsi sinn gang

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Forseti Alþingis reyndi að höfða til samvisku þingmanna Miðflokksins til að koma í veg fyrir frekara tjón.
Forseti Alþingis reyndi að höfða til samvisku þingmanna Miðflokksins til að koma í veg fyrir frekara tjón. FBL/Sigtryggur Ari
Við upphaf þingfundar í morgun skoraði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, á þingmenn Miðflokksins að hugleiða hvort rúmar 90 klukkustundir væru ekki nóg fyrir þá til að koma afstöðu sinni til þriðja orkupakkans á framfæri.

Þingmenn Miðflokksins hafa nú einir síns liðs haldið uppi málþófi um þriðja orkupakkann í rúmar 90 klukkustundir en umræðan í heild hefur staðið yfir í rúmar 100 klukkustundir. Þingmenn Miðflokksins hafa þannig farið hver á fætur öðrum í ræðustól Alþingis og svarað ræðum hvors annars.

Steingrímur reyndi enn og aftur að höfða til samvisku þingmannanna til að koma í veg fyrir frekara tjón.

„Forseti hefur áður lýst þeirri skoðun sinni og það fyrir nokkru síðan að ákaflega æskilegt væri að þeirri umræðu færi að ljúka þannig að hægt verði að hefja umræður um önnur þingmál sem bíða á meðan og áður en frekari röskun verður á starfi þingsins þessa vordaga og meira tjón hlýst af.“

Steingrímur reyndi að telja þeim hughvarf.

„Forseti skorar því enn og aftur á þingmenn Miðflokksins að hugleiða hvort 90 klukkustundir rúmar, eða þó fáeinar væru í viðbót, dugi ekki fyrir þá til að koma afstöðu sinni á framfæri þannig að þingið geti senn tekið afstöðu til málsins á þann hátt sem okkar leikreglur bjóða og endanlegt gildi hefur það er að segja að greiða um málið atkvæði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×