„Ég hef verið að halda mér í góðu standi og sjá vel um mig. Það er auðvitað langt síðan ég spilaði en er samt klár líkamlega og andlega séð,“ sagði Jón Daði fyrir æfingu landsliðsins í morgun.
„Ég náði síðustu vikunni hjá Reading og svo kom frí 5. maí. Ég fór svo á Selfoss og hef verið að æfa þar með Gunnari Borgþórssyni. Hann var alveg að drepa mig á köflum en á jákvæðan hátt. Svo kem ég hingað til æfinga og mér finnst ég ekkert vera eftir á.“
Selfyssingurinn er sáttur í herbúðum Reading og reiknar með því að óbreyttu að spila þar áfram.
„Ég á eitt ár eftir af samningnum og hef ekki heyrt annað en að ég verði þar áfram. Það er samt stutt á milli í þessu og það verður að koma í ljós hvort það sé áhugi á mér,“ segir Jón Daði og bætir við að fjölskylda hans sé ánægð í Englandi. Hann segir einhverjar þreifingar vera í gangi með framtíðina en má lítið tala um það.
„Það er eitthvað aðeins en ég segi ekki meira en það.“