Þetta var fyrsti landsleikur Guðbjargar í rúma níu mánuði, eða síðan Ísland gerði 1-1 jafntefli við Tékkland í lokaleik sínum í undankeppni HM 2019 í byrjun september í fyrra. Markvörðurinn gekkst skömmu síðar undir aðgerð á hásin og var frá í nokkra mánuði.
„Það er gott að vera komin til baka eftir að hafa verið frá í hálft ár. Nú get ég loksins lagt Tékkaleikinn frá mér,“ sagði Guðbjörg eftir sigurinn í dag.
„Það er mjög gott að klára þetta með sigri, halda hreinu og skora tvö góð mörk. Við héldum líka hreinu í síðasta leik. Hvað vörnina varðar var þetta frábær ferð,“ bætti Guðbjörg við en fyrri leikur Íslands og Finnlands endaði með markalausu jafntefli.
Guðbjörg kveðst fegin að vera komin aftur út á völlinn og klæðast landsliðstreyjunni á ný eftir meiðslin erfiðu.
„Þetta er geggjað. Mér líður eins og ég sé allavega fimm árum yngri. Mér var búið að vera illt í hásininni í tvö tímabil og þurfti að fara í þessa aðgerð. Það var annað hvort það eða hætta í fótbolta. Mér finnst ég vera í allt öðru standi núna,“ sagði Guðbjörg.
Viðtalið við hana í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.
Guðbjörg Gunnarsdóttir lék sinn fyrsta leik með liðinu síðan gegn Tékklandi á Laugardalsvelli í undankeppni HM 2019.#LeiðinTilEnglands#dottirpic.twitter.com/2Hp8aSiXb5
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) June 17, 2019