Vaxtakjör Íslandsbanka munu taka breytingum þann 1. júlí næstkomandi, en þetta er í þriðja sinn á jafn mörgum mánuðum sem bankinn boðar vaxtabreytingar. Tilefnið að þessu sinni er að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í morgun um 0,25 prósentustig.
Í tilkynningu frá Íslandsbanka eru tilgreindar breytingar sem taka munu gildi um næstu mánaðamót. Í fyrsta lagi munu óverðtryggðir vextir húsnæðislána lækka um 0,25 prósentustig auk þess sem Ergo bílalán og bílasamningar lækka um 0,25 prósentustig.
Þá munu breytilegir innlánsvextir bankans í flestum tilfellum lækka um 0,10-0,25 prósentustig og kjörvextir útlána lækka um 0,10 prósentustig. Hins vegar verða ekki gerðar breytingar á verðtryggðum húsnæðislánum.
Meðfram betra vaxtastig í landinu hefur Íslandsbanki, rétt eins og aðrar lánastofnanir, lækkað vexti á hinum ýmsu lánaflokkum á undanförnum mánuðum. Ekki er nema hálfur mánuður síðan að Íslandsbanki innleiddi margvíslegar breytingar á vaxtatöflu sinni. Þá, eins og nú, var tilefnið stýrivaxtalækkun Seðlabankans, en stýrivextir voru lækkaðir um 0,5 prósentustig í lok maí.
Á vefsíðu Aurbjargar má nálgast samanburð á vaxtakjörum lánastofnana.
