Erlent

Nýtur mikils trausts eftir árin hjá AGS

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Christine Lagarde.
Christine Lagarde. vísir/getty
Tilnefning Christine Lagarde í embætti bankastjóra Seðlabanka Evrópu kom fáum á óvart. Verði skipun hennar staðfest verður hún fyrsta konan til að gegna embættinu og tekur við af Mario Draghi þegar kjörtímabil hans rennur út hinn 31. október næstkomandi.

Eftir átta ár sem framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er Lagarde orðin stórstjarna í hinum alþjóðlega fjármálaheimi. Í Financial Times í dag kemur fram að Lagarde hafi tekist að endurheimta traust á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eftir skuldakreppuna í Grikklandi þar sem sjóðurinn neyddist til að brjóta eigin lánareglur en traust á sjóðnum var um tíma laskað eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna.

Undir stjórn Lagarde réðst AGS í stærsta björgunarleiðangur sjóðsins til þessa en það var 57 milljarða dollara lánapakki handa Argentínu. Samhliða tilnefningu Lagarde í embætti bankastjóra Seðlabanka Evrópu var Ursula Von der Leyen tilnefnd sem næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB en hún verður einnig fyrsta konan sem gegnir því embætti verði skipun hennar staðfest. Mun hún taka við af Jean-Claude Juncker sem hefur verið forseti framkvæmdastjórnarinnar frá árinu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×