Körfubolti

Enginn leikmaður Golden State má hér eftir spila í númeri Kevin Durant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant lék í treyju númer 35 hjá Golden State Warriors.
Kevin Durant lék í treyju númer 35 hjá Golden State Warriors. Getty/Yong Teck Lim
NBA körfuboltaliðið Golden State Warriors þakkaði Kevin Durant fyrir tíma sinn með félaginu í sérstakri tilkynningu í gær og lofuðu honum jafnframt einu.

Kevin Durant tók ekki risatilboði frá Golden State Warriors heldur valdi frekar að semja við lið Brooklyn Nets. Hann varð tvisvar sinnum NBA-meistari með Golden State og hefði eflaust unnið þriðja titilinn í ár hefði hann ekki meiðst í úrslitakeppninni.





Golden State ætlar að heiðra Kevin Durant og það sem hann gerði fyrir félagið með því að banna leikmönnum félagsins að spila í númerinu hans.

Kevin Durant spilaði í treyju númer 35 hjá Golden State Warriors og stjórnarformaðurinn Joe Lacob lofaði því í yfirlýsingunni að enginn fengi að spila í 35 á meðan hann réði einhverju hjá félaginu. Það má sjá yfirlýsinguna hér fyrir neðan.





Kevin Durant var með 25,8 stig, 7,1 frákast og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í 208 deildarleikjum með Golden State Warriors. Hann hafði spilað í níu tímabil með Oklahoma Thunder áður en hann kom til Oakland.

Í úrslitakeppninni hækkaði Durant stigaskor sitt upp í 29,6 stig í leik í 48 leikjum auk þess að taka 7,1 frákast og gefa 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það er því óhætt að segja að kappinn hafi spilað best þegar mest var undir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×