Fjögur börn hafa greinst með e. coli sýkingu í dag og hafa því alls sextán börn greinst með sýkinguna síðustu vikur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni. Börnin eru á aldrinum 14 mánaða til 4 ára en tuttugu og sjö sýni hafa verið rannsökuð í dag.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvar börnin fjögur smituðust af sýkingunni. Fram hefur komið að a.m.k. níu börn smituðust á bænum Efstadal II í Bláskógabyggð. Í tilkynningu segir að þriðjungur starfsmanna í Efstadal hafi verið rannsakaðir með tilliti til sýkingarinnar í dag en enginn þeirra greindist með bakteríuna.
Börnin sem greindust í dag munu fara í eftirlit á Barnaspítala Hringsins.
Viðar Örn Eðvarðsson, sérfræðingur í nýrnalækningum á Landspítalanum, sagði í samtali við fréttastofu fyrir hádegi að enn væri óljóst hvort fimm mánaða barn sem lagt var inn á Barnaspítalann í fyrradag með nýrnabilun af völdum E. coli-sýkingar þurfi blóðhreinsun.
