Innlent

Vilja að arðurinn frá Landsvirkjun niðurgreiði raforkuverð úti á landi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Búrfellsvirkjun er ein virkjana Landsvirkjunar á Suðurlandi.
Búrfellsvirkjun er ein virkjana Landsvirkjunar á Suðurlandi. Fréttablaðið/Vilhelm
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi vill að iðnaðarráðherra beiti sér fyrir því að raforkuverð í dreifbýli og þéttbýli verði jafnað.

„Frá því að skipulagsbreytingar voru gerðar á raforkukerfinu árið 2005 hafa fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku í þéttbýli og dreifbýli haft tvær mismunandi gjaldskrár, aðra fyrir dreifingu raforku í þéttbýli og hina fyrir dreifingu raforku í dreifbýli. Þrátt fyrir niðurgreiðslu frá ríkinu, með svonefndu dreifbýlisframlagi, er raforkuverð í dreifbýli enn hærra en raforkuverð í þéttbýli,“ segir í ályktun frá SASS. Nýta megi hluta af arði af rekstri Landsvirkjunar sem framlag til niðurgreiðslu raforkuverðs.

„Bent er á að í gegnum tíðina hefur verið rætt um að þegar skuldir Landsvirkjunar hafi verið greiddar niður muni arður af henni nýtast í þágu landsmanna. Það liggur beinast við að sá arður verði nýttur á sviði raforkumála og beinlínis í þágu landsbyggðarinnar, þar sem allar virkjanir Landsvirkjunar standa,“ segir SASS.

„Tímabært er að íbúar hinna dreifðu byggða sitji við sama borð og íbúar í þéttbýli hvað varðar raforkuverð og í raun hálfhjákátlegt að þeir sem búa næst uppsprettu raforkunnar, nærri virkjununum eða undir raflínum sem flytur orkuna á suðvesturhornið, skuli greiða hærra verð fyrir orkuna en þeir sem fjær búa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×