Örvar gerði sér lítið fyrir og vann sigur í hástökki í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands utanhúss í Kaplakrika í gær. Einar Guðnason, aðstoðarþjálfari Víkings, benti á þessa skemmtilegu staðreynd á Twitter.
Á laugardaginn fór Pepsídeildar leikmaðurinn Örvar Eggertsson beint af fótboltaæfingu á Bikarmót í frjálsum þar sem hann stökk 2.01 í hástökki og hlaut gullverðlaun fyrir. Nokkuð gott fyrir mann sem æfir ekki frjálsar. Ekki eins gott fyrir þá sem æfa.
— Einar Gudnason (@EinarGudna) July 28, 2019
Örvar, sem keppti fyrir FH, hafði betur í baráttu við ÍR-inginn Benjamín Jóhann Johnsen. Þeir stukku báðir yfir 2,01 metra. Benjamín felldi hins vegar 1,95 metra einu sinni og því var sigurinn Örvars.

Örvar á ekki langt að sækja frjálsíþróttahæfileikana en foreldrar hans, Eggert Bogason og Ragnheiður Ólafsdóttir, voru bæði afreksfólk í frjálsum.
Auk þess að vinna hástökkið fagnaði Örvar bikarmeistaratitli með félögum sínum í FH. Fimleikafélagið fékk 135 stig en ÍR 118 stig.
Það er skammt stórra högga á milli hjá Örvari því annað kvöld mæta hann og félagar hans í Víkingi Breiðabliki í 14. umferð Pepsi Max-deildarinnar.
Örvar, sem er tvítugur, hefur leikið átta leiki í deild og bikar með Víkingum í sumar.
