Stjórnarmeirihluti Shinzo Abe, sitjandi forsætisráðherra Japans hélt meirihluta sínum í nýafstöðnum kosningum þar í landi þegar kosið var um sæti í efri deild þingsins.
Japanska ríkissjónvarpið greindi frá því rétt upp úr miðnætti að staðartíma að Frjálslyndi lýðræðisflokkur Abe og samstarfsflokkur hans Komeito hafi saman hlotið 69 sæti í efri deild japanska þingsins. Ef Abe fær einnig stuðning frá íhaldsþingmönnum og öðrum óháðum væri stjórnarmeirihluti hans samtals með 76 sæti í efri deildinni.
Markmið flokksins var að ná samtals 85 sæta meirihluta í efri deildinni, þar sem slíkur meirihluti myndi gera Abe betur kleift að ná fram tillögum sínum um stjórnarskrárúrbætur. Allt bendir til þess að það markmið muni ekki nást.
Abe fangaði þó niðurstöðunum. Stjórnarmeirihluti forsætisráðherrans hefur nú þegar tvo þriðju meirihluta í neðri deild þingsins.
Með sigrinum stefnir Shinzo Abe í að verða sá forsætisráðherra Japans sem hefur setið lengst í sæti forsætisráðherra.
