Enski boltinn

Fór ekki til Juventus peninganna vegna og segir frá skrautlegri slúðursögu um Manchester United

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Ligt í sínum fyrsta leik fyrir Juventus.
De Ligt í sínum fyrsta leik fyrir Juventus. vísir/getty
Matthijs de Ligt, sem gekk í raðir Juventus í síðustu viku, segir að peningar hafi ekki spilað neitt hlutverk í ákvörðun sinni að ganga í raðir ítalska stórliðsins.

Margir ræddu um ákvörðun Hollendingsins að ganga í raðir Juventus og einhverjir vildu tengja það við að hann myndi fá mest borgað þar. Varnarmaðurinn öflugi segir það rangt.

„Peningar spiluðu ekki neitt hlutverk í leit minni að nýju félagi. Allir sem þekkja mig vita það,“ sagði De Ligt í samtali við hollenskan fjölmiðil.

„Peningar hafa aldrei verið leiðandi hjá mér. Allir eiga rétt á sinni skoðun og ég virði það en sumt fólk var að segja hluti eins og þessa mjög oft.“







Þessi frábæri varnarmaður segir að slúðursögurnar hafi verið fyndnari og fyndnari með hverjum deginum sem leið.  

„Það var alltaf eitthvað nýtt. Skyndilega þá var sagt að pabbi minn væri of feitur og það væri ástæðan fyrir því að Manchester United vildi mig ekki. Þá hugsarðu: Láttu ekki svona, maður,“ sagði Hollendingurinn ekki hrifinn af slúðursögunum.

Umboðsmaður De Ligt, Mino Raiola, hefur ávallt verið mikill á milli tannanna á fólki en varnarmaðurinn var fljótur að koma umboðsmanni sínum til varnar.

„Hann er með mikla reynslu. Ég held að það sé mjög neikvæð mynd af honum í Hollandi en þannig er hann ekki. Ég held að ef þú spyrð leikmenn hvort að hann sé góður fyrir þá, myndu allir segja já.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×