Ný íslensk flugfélög gætu horft fram á verri kjör hjá erlendum leigusölum vegna kyrrsetningar Isavia á Airbus-vél bandaríska félagsins ALC. Kyrrsetningin hafði neikvæð áhrif á Ísland sem flugrekstrarland að mati leigusalanna sem meta áhættu í starfsumhverfi flugfélaga þegar þeir ákvarða leigukjör.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við Fréttablaðið að málið hafi borið á góma í samskiptum við erlenda leigusala. „Það er mat þeirra að þessar aðgerðir hafi haft neikvæð áhrif á Ísland sem flugrekstrarland og þá sérstaklega ný fyrirtæki sem eiga enga rekstrarsögu að baki,“ segir Bogi Nils. Hann gerir hins vegar ekki ráð fyrir að málið hafi teljandi áhrif á Icelandair eða þau leigukjör sem standa flugfélaginu til boða þar sem Icelandair sé eftirsóttur viðskiptavinur á markaðinum.
Spurður hvort erlendir leigusalar muni leggja áhættuálag á ný íslensk flugfélög segir Bogi Nils að svo geti verið. „Þetta virkar þannig að leigusalar eru með áhættunefndir sem meta hvað hefur gerst hjá fyrirtækjunum og í þeim löndum sem þau starfa í. Að mínu mati mun þetta hafa áhrif til hækkunar á íslensk flugfélög sem eru að hefja rekstur. Ég held að það sé engin spurning,“ segir Bogi Nils.
